Á leið í frí…

Nú styttist í að ég fari í langþráð sumarfrí, eitthvað sem ég hef ekki alltaf kunnað að njóta, og langar mig því að skrifa og deila hér þeim hugleiðingum sem bærast í kollinum á mér þessa dagana.

Ég er búin að vera að vinna í bók sem ég er að skrifa, með Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur. Bókin er um ýmsar breytingar á trendum, eða mynstrum, í umhverfi okkar og hvernig þau þær breytingar hafa áhrif á þróun á vinnumarkaði.

En ég hef í þó nokkuð mörg ár núna verið að grúska í alls kyns efni um framtíð vinnu, vinnustaða, vinnuafls og vinnumarkaðar.

Við gerðum mjög skemmtilega rannsókn við gerð bókarinnar sem ég held að muni verða áhugaverð fyrir alla þá sem eru að velta þessum hlutum fyrir sér. Áætlað er að bókin komi út fyrri part september.

Ég veit annars ekki hvort það eru bókaskrifin og rannsóknarvinnan öll í kringum hana sem er búin að hræra svona mikið í kollinum á mér eða sú staðreynd að ég á stórafmælinu á árinu og er líka nýorðin amma, en ég finn alla vega að margt í hugmyndum mínum um lífið er að breytast.

Kannski ekki endilega beint að breytast, kannski frekar að beinast aftur í áttir sem ég gaf meiri gaum og gaf mér meiri tíma í fyrir nokkrum árum en ég hef leyft mér allra síðustu ár.

Í stuttu máli sagt er ég að verða meðvitaðri um verðmætin sem felast í tímanum. Að tíminn líður og kemur ekki aftur. Að mig langar að geta stjórnað tíma mínum betur.

Ég er líka að verða meðvitaðri um mikilvægi heilsunnar, líkamlegrar og andlegrar, og minni ábyrgð þegar kemur að því að hafa góða heilsu.
Þessu tengt brá mér svo líka all svakalega nýlega þegar ég las grein á BBC fyrir nokkrum dögum sem talar um hve margir deyja árlega ótímabærum dauða, sem rekja má til of mikillar vinnu. Fólk á besta aldri, sem sinnir reglulega líkamsrækt og er með hollt mataræði, en er að deyja vegna of mikillar vinnu – hversu klikkað er það?

          Er fólk að lifa til að vinna eða vinna til að lifa? 

Það að það skuli vera til hreyfing sem heitir Hæglætishreyfingin segir okkur líka eitthvað.

Í rannsóknarvinnunni tengt bókinni okkar Árelíu var gaman að sjá að það virðist vera að aukast að fólk ákveði hvernig lífsstíl það vilji viðhafa og velji sér svo störf eða verkefni til að styðja við þann lífsstíl. Ekki eins og var algengara áður, að fólk veldi sér störf eða verkefni og svo fylgdi lífsstíllinn því vali.

Núna í júní kenndi ég stutt námskeið í Opna háskólanum, hjá Háskólanum í Reykjavík, sem hét Næstu skref á starfsferlinum. Námskeiðið virðist hafa fallið vel í kramið hjá þátttakendum en ég skoraði 4,83 af 5 mögulegum í ánægju þeirra með leiðbeinandann, sem var ég eins og áður sagði.
Athugasemdir sem fylgdu í námsmatinu, þegar spurt var út í hvað fólki fannst best við námskeiðið, voru sem dæmi: „Frábært og skemmtilegt“, „Innihald efnis“, „Frábær leiðbeinandi!“, „Herdís virtist vel undirbúin og reynslumikil. Tók góð dæmi og gerði vel í að ná virkni fram í hópnum þrátt fyrir skamman tíma”.
 - Og svo það sem fólki taldi að betur hefði mátt fara var t.d. “Mættu vera aðeins meiri tími, hún hélt námskeiðinu svo lifandi að ég hefði alveg viljað vera lengur”.
Þátttakendur áttu það allir sameiginlegt að vera að huga að næstu skrefum á starfsferlinum og hvernig næstu skref gætu hjálpað þeim að vaxa bæði í einkalífi og starfi, á sama tíma.

Í haust verðum við Árelía með námskeið sem tengjast bókinni okkar, þróun vinnumarkaðar og hvernig sú þróun er að hafa áhrif á einstaklinga og fyrirtæki og hvernig einstaklingar og fyrirtæki geta betur spilað á vinnumarkaði framtíðar - en við segjum gjarnan að vinnustaður framtíðarinnar sé þar sem þú vilt, þegar þú vilt. Einstaklingar og fyrirtæki munu kaupa og selja þekkingu og hæfni á markaðstorgi þekkingar.

Nú er ég hins vegar á leiðinni í sumarfrí og hlakkar mig mikið til. Mér hefur oft fundist sumarfrí leiðindatruflun á góðum vinnutíma, laumast með símann á klósettið til að lesa og svara tölvupóstum - en sem betur fer hætt slíkri vitleysu núna. 
Nú hlakkar mig bara mikið til og ætla að leggja mig fram við að hugsa ekki um vinnunna, heldur að njóta hvers dags. 
 - Ef ég ætla að hugsa um eitthvað þá verður það hver ég er, hvað mig langar og hvernig ég vil hafa minn lífsstíl.

Skora á þig að gera það líka.
Previous
Previous

Það besta sem Covid hefur gefið okkur

Next
Next

Betri ákvarðanir, betri árangur- fyrir þig.