Það besta sem Covid hefur gefið okkur

Það er sko alveg á hreinu að ég er enginn aðdáandi Covid en ég held svei mér að ég verði samt að tala aðeins um það jákvæða sem mér finnst vera að koma út úr þessum Covid-tímum.

Á tímum Covid höfum við orðið að hægja á okkur. Minnka hraðann og spanið út um allt.
Við höfum flest varið meira tíma heima hjá okkur.
Við höfum líka flest varið tíma með færri einstaklingum en áður og þá þeim einstaklingum sem við höfum valið inn í “kúlurnar” okkar, hvort sem það var nú jóla-kúla, páska-kúla, sumar-kúla eða annað.

Samhliða þessu höfum við haft meiri tíma fyrir okkur sjálf og með okkur sjálfum, sem margir hafa notað til að líta inn á við. Hlusta á eigin hugsanir. Endurmeta lífsgildi okkar. Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli?

Ég fylgist mjög mikið með því sem er verið að skrifa um stjórnun og mannauðsstjórnun, hvað er að gerast almennt í vinnu-málum.
Nú er mikið skrifað um bylgju sem kölluð er “The Great Resignation”, skulum kalla hana uppsagnar-bylgjuna.
Það er talað um að það sé stór hluti fólks á vinnumarkaði að íhuga að skipta um starf, og oftast vegna einhvers konar starfsþrots eða kulnunar.
En svo eru aðrir sem kalla þessa bylgju “The Great Awakening”, skulum kalla hana vakningar-bylgjuna (hálf skrýtið orð reyndar…)


Það eru jú margir á vinnumarkaði núna að íhuga hvernig þeir vilja halda áfram, eftir að hafa litið inn á við og aukið sjálfsþekkingu sína. Ég trúi því að það verði margir sem munu hætta, eða vilja hætta í núverandi starfi, ekki endilega til að fara að fá sér álíka starf á svipuðum vinnustað, heldur til að fara að vinna með allt öðrum hætti.
Það getur verið að einhverjir fari í að leita sér að annars konar starfi hjá annars konar vinnuveitanda, en ég trúi að það verði mikið fleiri sem velja að fara að nýta þekkingu sína, reynslu og hæfni, til að afla sér lífsviðurværis á eigin forsendum. Að taka að sér verkefni sem styðja við þann lífsstíl sem fólk vill viðhafa, ekki að láta lífsstílinn ráðast af því við hvað er starfað.

Nú er góður tími til að teikna upp eigin leiðarvísi, að kortleggja hvaða leið við viljum fara, í einkalífi og vinnu, hvernig við ætlum að fara þessa leið, á hvaða tíma, með hverjum o.s.frv.

Ég hef lengið talað um mikilvægi heilbrigðrar samþættingar vinnu og einkalífs og að ef einstaklingur vill upplifa velgengni í lífinu þá verði hún að vera 360° velgengni eins og ég kalla það. Það sem ég meina með því er að velgengi á einu sviði lífs okkar megi ekki vera á kostnað velgengi á öðrum sviðum lífs okkar.
Er t.d. einstaklingur sem nýtur velgengni í starfi sínu en sinnir hvorki heilsunni, fjölskyldunni eða vinunum raunverulega að njóta velgengni í lífinu?

Við höfum líka of lengi verið að starfa út frá hugmyndum sem komu fram í annarri iðnbyltingunni, eða upp úr ca. 1950.
Þar sem fólk varði öllum vinnutíma sínum á hverjum sólarhring í vinnu hjá einum vinnuveitanda. Allir mættu á sama tíma og hættu á sama tíma. Allir unnu eins, með sama búnaðinn og í sama einkennisfatnaðinum.

Fjórða iðnbyltingin hefur gefið okkur tækifæri til að endurskoða svo margar hugmyndir okkar um vinnu.
Hver segir að það sé endilega best í dag að vinna frá kl. 9 á morgnana til kl. 17 síðdegis, 5 daga vikunnar?
Hver segir að það sé endilega best að mæta alltaf í eitthvað eitt ákveðið húsnæði til að leysa verkefnin okkar?
Gætum við náð meiri árangri og verið meira skapandi og lausnamiðuð með því að vinna á einhvern annan hátt?

Ég trúi að fyrir ansi marga verði það þannig að vinnustaður framtíðarinnar verði þar sem þú vilt, þegar þú vilt.

- Nú styttist í að bók okkar dr. Árelíu Eydísar Guðmundsdóttur komi út, þar sem við fjöllum einmitt um eitthvað af þessum hugmyndum og byggjum meðal annars á nýjum íslenskum rannsóknum sem við framkvæmdum samhliða skrifunum.

Previous
Previous

Velsæld er góður bissness

Next
Next

Á leið í frí…