10 áramótaheit fyrir vinnuna og einkalífið

10 góð áramótaheit fyrir þig sem fagmanneskju – og nýtast þér einnig til aukinna lífsgæða.

1. Lærðu eitthvað nýtt á árinu 2022.
Ekki bara meira um það sem þú þegar kannt heldur eitthvað alveg nýtt og sem gerir þig að verðmeiri einstaklingi á vinnumarkaði.
Til dæmis eitthvað tengt þeim hæfniþáttum sem World Economic Forum talar um sem hæfniþætti sem aukin eftirspurn er eftir á næstu árum eða um þau tækifæri sem eru á vinnumarkaði framtíðarinnar.

2. Gerðu eitthvað alveg nýtt á árinu 2022.
Eitthvað sem víkkar sjóndeildarhring þig, gerir þig meira skapandi eða hjálpar þér að tengjast fólki á dýpri hátt.
Bjóddu þig fram til sjálfboðaliðastarfa hjá Rauða krossinum. Skráðu þig í kór. Byrjaðu í sjósundi. Farðu í Rjúkandi fargufu.

3. Bókaðu þér eina helgi þar sem þú aftengir þig samfélagsmiðlum og internetinu eins og það leggur sig.
Verðu helginni í nærandi samskipti og skemmtilega iðju. Rifjaðu upp hverju þú hefur gaman að. Rifjaðu upp hverjum þig langar að verja tíma með. Farðu og finndu lyktina af náttúrunni. Labbaðu í grasinu eða sandinum.
Kannski góð hugmynd að taka eina svona helgi á hverjum ársfjórðungi.

4. Hættu að sleppa því að fara í mat eða pásur með vinnufélögunum.
Brjóttu upp daginn til að næra þig vel, líkamlega og andlega. Hvíldu heilann í smástund frá því að hugsa um vinnutengd verkefni. Bjóddu vinnufélögunum í göngutúr. Bryddaðu upp á einhverju skemmtilegu umræðuefni á kaffistofunni.

5. Hættu að mæta í vinnuna veik/-ur.
Ef þú ert sannarlega veik/-ur þá gerir það engum gott að þú mætir. Ekki mæta veikur í vinnuna og smita vinnufélagana. Ekki mæta veikur í vinnuna og vera helmingi lengur að ná úr þér veikindunum. Hlúðu vel að þér, það geta allir orðið veikir, það er hluti af því að vera mannlegur.

6. Ræktaðu betur tengslin við fólk sem þú hefur lært eða unnið með, tengslanetið þitt.
Ekki sleppa því að mæta á viðburði með gömlum skólafélögum, hjá fagfélaginu þínu eða öðrum hópum sem þú tilheyrir.
Gefðu af þér í tengslanetið, segðu frá góðum bókum eða greinum sem þú lest, bentu öðrum á áhugaverð námskeið og ráðstefnur.
Ekki bara hafa samband þegar þig vantar eitthvað.

7. Taktu ábyrgð á því hvernig þér gengur.
Þú veist væntanlega hvað þú þarft að gera til að ná þeim árangri sem þú vilt ná, í vinnu og einkalífi. Gerðu það sem þarf til. Skipuleggðu þig. Forgangsraðaðu tíma þínum. Óskaðu eftir verkefnum sem þig langar í. Segðu nei við verkefnum sem þú hefur ekki tíma til að sinna vel eða passa ekki þínum styrkleikum. Útdeildu verkefnum til annarra, í samræmi við ábyrgð þína. Taktu ábyrgð á mögulegum mistökum. Hrósaðu öðrum.
Láttu það ekki vera einhverja óvænta heppni að ná þangað sem þú vilt – taktu ábyrgð á því að taka þau skref sem til þarf.

8. Veldu fyrir þig og stattu með þér.
Segðu það sem þú meinar og meintu það sem þú segir. Tjáðu þig um það sem þér finnst og þig langar. Komdu fram með hugmyndir þínar og tillögur. Spyrðu um það sem þú veist ekki. Ekki setja á þig óraunhæfar og ómanneskjulegar kröfur.
Vertu meðvituð/meðvitaður um hvað þú vilt og leyfðu þér að njóta allrar þinnar velgengni.
Talaðu ekki til þín, og leyfðu ekki öðrum að tala til þín, á þann hátt sem þú myndir aldrei tala til annarra.
Settu heilbrigð mörk í samskiptum. Komdu þér úr aðstæðum sem eru skaðlegar fyrir þig.
Gerðu og vertu það sem þú vilt, jafnvel þó það ruggi einhverjum bátum í kringum þig, svo fremi það sé ekki skaðlegt fyrir aðra.

9. Leggðu góða rækt við heilsu þína, líkamlega, andlega, félagslega og fjárhagslega.
Taktu þér tíma til að sinna hreyfingu og borða hollt. Passaðu upp á að fá nægan svefn. Drekktu vatn.
Stundaðu hugleiðslu. Farðu reglulega út í náttúruna. Hvíldu þig þegar þú ert þreytt/ur.
Heimsæktu reglulega fólk sem þér þykir vænt um, bjóddu fólki heim eða hittu það á öðrum stöðum. Símtal eða spjall á samfélagsmiðlum kemur ekki í stað samveru í raunheimum.
Ekki eyða um efni fram. Passaðu að eiga varasjóð, helst sem nemur framfærslu í jafn marga mánuði og uppsagnarfrestur þinn í vinnunni – því fylgir ótrúlegt frelsi og þá þarftu ekki að vera í vinnu sem þig langar ekki til að vera í.

10. Hafðu meira gaman. Hlæðu meira.
Taktu meðvitað tíma, daglega, vikulega eða mánaðarlega, til að gera það sem þú hefur gaman að og nærir þig.
Horfðu á skemmtilega bíómynd. Lestu skáldsögur. Gerðu eitthvað sem er ekki planað. Kryddaðu lífið með dass af kæruleysi.
Prófaðu eitthvað nýtt sem þú hefur ekki prófað áður, t.d. að fara í aðra sundlaug en vanalega, taka göngutúr í öðru hverfi, prófa axarkast, bogfimi eða annað.
Vertu vinnufélaginn, vinurinn eða fjölskyldumeðlimurinn sem allir gleðjast yfir því þegar mætir á svæðið – en ekki þegar þú mætir ekki.

—-

Ef þig vantar hjálp við að taka næstu skref á þínum starfsferli hafðu þá endilega samband.


Hér má lesa meira um mig, minn bakgrunn og mína þjónustu,

  • einnig þá fyrirlestra, námskeið og aðra þjónustu sem ég býð upp á fyrir ýmsa hópa, félög og fyrirtæki

  • sem og þjónustu sem ég býð einstaklingum og stjórnendum.

Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.

Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.


Módelið mitt

Þetta módel setti ég saman fyrir nokkrum árum,
þegar ég var sem mest að coacha eða markþjálfa.

Mínir viðskiptavinir voru helst stjórnendur sem vildu styrkja sig í því hlutverki á sama tíma og þeir vildu huga að eigin lífsgæðum.
Einnig fólk á krossgötum á sínum starfsferli.


Ert þú með allt á hreinu um þá byltingu sem er að verða á vinnumarkaðnum?

Ratar þú um völundarhús tækifæranna?

Kannt þú að taka þátt á markaðstorgi þekkingar?

Veist þú hvað giggari er?

Vilt þú auka lífsgæði þín?

Kíktu endilega á þessa bók og fáðu svörin.


Námskeið fyrir spennandi tækifæri
á vinnumarkaði framtíðarinnar

Hefur þú áhuga á að skoða eigin hæfni og möguleg tækifæri - eða ertu í pælingum um starfsþróun þína og vilt hugsa út fyrir boxið?

Viltu ná lengra á sömu braut og þú ert í dag eða viltu fara nýjar leiðir?

Þekkir þú tækifærin á vinnumarkaði framtíðarinnar?

Previous
Previous

Stjórnun er fag

Next
Next

Hvað mun einkenna árið 2022?