Einföld leið til að bæta framleiðni og almenna velsæld

Það er vinsælt umræðuefni að tala um framleiðni, hvernig hún hefur áhrif á þjóðarframleiðslu og efnahagsmál þjóðarinnar, svo ekki sé nú minnst á samanburð okkar við aðrar þjóðir þegar kemur að framleiðni.

En hvað ef hægt væri að bæta framleiðni, og jafnvel að lækka skatta, án mikils tilkostnaðar og með tiltölulega einföldum hætti, ættum við þá ekki öll að stökkva á þá lausn?

Drögum úr veikindum og tengdum kostnaði með meiri skýrleika

Nýlega las ég frétt frá Gallup á Íslandi þar sem fram kemur að samkvæmt nýjum rannsóknum þeirra er skýrt samhengi á milli fjölda veikindadaga starfsfólks og það hversu vel það veit til hvers er ætlast af því í vinnu.

Veikindafjarvistir verða aldrei umflúnar með öllu en þær kosta okkur sem samfélag mjög mikið og það væri mikið til vinnandi og draga úr þeim, sérstaklega með aðgerðum sem kosta lítið eða ekki neitt, eins og betri stjórnun.

Erfitt er að nálgast upplýsingar um meðaldagafjölda vegna skammtímaveikinda starfsfólks á íslenskum vinnumarkaði. Samkvæmt því sem ég kem næst er þetta meðaltal einhvers staðar í kringum 5 dagar á ári. Ef kostnaður vegna þessara daga er reiknaður út frá meðallaunakostnaði árið 2022, má áætla að veikindi hvers starfsmanns kosti rúmlega 200 þús. krónur á ári og fyrir 50 manna vinnustað eru þetta rúmar 11 milljónir. Mögulega þarf ekki nema brot af þessari upphæð til að draga verulega úr kostnaði vegna veikinda, t.d. með bættri stjórnun og betra vinnuumhverfi.
Ef við bætum við það kostnaði vegna álags á annað starfsfólk, minni afkastagetu vinnustaðarins, mögulega seinkun á afhendingu vara eða þjónustu o.s.frv. má auðveldlega sjá að kostnaðurinn getur orðið mikið meiri.

Það er sláandi að lesa tölurnar frá Gallup, um hve margt starfsfólk veit ekki almennilega til hvers er ætlast af sér í starfi. Þeir sem vita það ekki eiga þá erfiðara með að ná góðri frammistöðu, sem aftur hefur áhrif á tíðni hróss, tækifæra til starfsþróunar og bættra kjara. Óöryggi í starfi dregur líka úr starfsánægju, samvinnu, skapandi hugsun og þar sem meirihluta vökutíma flestra er varið í vinnu hefur þetta líka áhrif á almenn lífsgæði.

Drögum úr sóun með betri stjórnun

Árið 2018 skrifaði ég grein undir yfirskriftinni „Að stjórna mannauðnum eins og fjármálunum“. Enn upplifi ég það þannig að mörg hugtök úr fræðum mannauðsstjórnunar þyki ekki nógu áhugaverð fyrir þá sem taka stærstu ákvarðanirnar og að oft sé árangursríkara að nota hugtök úr öðrum stjórnunarfræðum.

Núna ætla ég því að tala um stjórnun mannauðs með gleraugum áhættustjórnunar.

Það er almennt skilningur á því að í rekstri fyrirtækja þurfi að stýra áhættu, skoða vel samhengi áhættu og vænts ávinnings.

Út frá reynslu minni af að hafa starfað við stjórnun um árabil, sem framkvæmastjóri, mannauðsstjóri, ráðgjafi o.fl. veit ég að margir vinnustaðir gætu nýtt betur gögn sem snúa að mannauðnum, tekið betri ákvarðanir út frá gögnum og dregið úr áhættu með því að nota gögn til að sjá fyrir hvað gæti gerst.

Fjölga ætti þeim mælikvörðum sem stjórnendur horfa á, til að draga úr áhættu og bæta árangur – árangur sem hægt er að mæla út frá rekstrarniðurstöðum en einnig áhrifum á fólk og umhverfi.

Og til viðbótar við að fjölga mælikvörðunum mætti horfa á marga þeirra í meira samhengi og yfir lengri tíma, til að skilja enn betur samspil og áhrif ýmissa þátta í rekstrinum.

Nokkrir áhættutengdir þættir sem ég hvet vinnustaði til að skoða:

  • Veikindafjarvistir, ekki bara í dögum heldur kostnaði, samhengi við stjórnun, starfsánægju og upplifun starfsfólks á tækifærum til að læra og þróast í starfi

  • Starfsmannavelta, ekki bara í prósentum heldur raunverulegum kostnaði og áhrif á rekstrarniðurstöður, sem og samhengi við stjórnun, starfsánægju og ímynd vinnustaðar

  • Starfsaldur og starfsmannavelta meðal stjórnenda, samhengi við hversu vel vinnustaðnum gengur að ná í og halda í hæft fólk, við trú á vinnustaðnum og við rekstrarniðurstöður

  • Hlutfall rekstrartekna sem notað er til að fjárfesta í nýrri þekkingu, samhengi við starfsánægju, starfsmannaveltu og í samanburði við samkeppnisaðila

Árið 2021 skrifaði formaður SEC, U.S. Securities and exchange commision (myndi væntanlega þýðast sem verðbréfa- og kauphallarnefnd), Gary Gensler, um að mikilvægt væri að setja aukinn fókus á mannauðinn, enda væri hann um það bil 90% af virði S&P 500 fyrirtækja, fyrirtækja sem falla undir S&P 500 hlutabréfavísitöluna. Hann hefur talað fyrir því að þessi fyrirtæki gefi upp, og verði jafnvel skylduð til að gefa upp eftirtaldar tölur úr eigin rekstri:

  • Fjármagn sem varið er í þjálfun og þróun starfsfólks

  • Samsetning starfsmannahópsins

  • Starfsmannavelta

  • Fjölbreytileiki

  • Laun og hlunnindi

Allar þessar stærðir geta hjálpað til við að leggja mat á áhættu í rekstrinum og hversu heilbrigður reksturinn er til lengri tíma litið.

Er fyrirtækið að búa sig undir framtíðina með þjálfun og þróun? Er samsetning starfsmannahópsins að endurspegla samfélagið eða viðskiptavinahópinn, út frá aldri, kynjum o.fl.? Er starfsmannavelta of lítil, of mikil, að aukast, meiri en hjá samkeppnisaðilunum? Er starfsmannahópurinn of einsleitur eða er verið að nýta fjölbreytileikann til að laða að fólk, auka sköpunarhæfni o.fl. Eru laun og hlunnindi að halda í við markaðinn, duga þau til að laða að fólk, eru þau í samhengi við frammistöðu?

Það er sannarlega fjölbreytt tölfræði sem hægt er að skoða þegar kemur að mannauði vinnustaða og mikil ónýtt tækifæri þar að mínu mati.


Ef þinn vinnustað vantar stjórnunarráðgjöf, stjórnendaþjálfun eða fræðslu fyrir starfsfólk þá ekki hika við að hafa samband.

Herdís Pála er reyndur og farsæll stjórnandi sem hefur sinnt ráðgjöf og þjálfun fyrir fjölmarga vinnustaði og stjórnendur.


Hér má lesa meira um mig, minn bakgrunn og mína þjónustu,

  • einnig þá fyrirlestra, námskeið og aðra þjónustu sem ég býð upp á fyrir ýmsa hópa, félög og fyrirtæki

  • sem og þjónustu sem ég býð einstaklingum og stjórnendum

Hér má lesa umsagnir og sjá dæmi um vinnustaði sem ég hef unnið fyrir.

Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.

Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.


Módelið mitt

Þetta módel setti ég saman fyrir nokkrum árum,
sem stuðningsefni fyrir þá sem ég var að coacha eða markþjálfa.

Mínir viðskiptavinir eru helst stjórnendur sem vilja styrkja sig í því hlutverki á sama tíma og þeir vilja huga að eigin lífsgæðum.
Einnig fólk á krossgötum á sínum starfsferli.


Ert þú með allt á hreinu um þá byltingu sem er að verða á vinnumarkaðnum?

Viltu auka atvinnuhæfni þína og læra að skapa þér fleiri tækifæri til framtíðar litið?

Kíktu endilega á þessa bók og fáðu svörin.

Einnig má nálgast bókina á Storytel.


Next
Next

Áhættustjórnun og mannauðsstjórnun