6 leiðir til að vaxa, í einkalífi og starfi - á sama tíma

Hugsar þú meira um hvernig þú átt að vaxa í starfi - en þú hugsar um hvernig þú getir vaxið í þínu einkalífi?
Hugsar þú meira um hvernig þú getur þróast sem fagmanneskja - en þú hugsar um hvernig þú getir þróast sem manneskja?

Fyrir mér helst þetta í hendur - eða þarf alla vega að fara saman.

Í umhverfi dagsins í dag eru þetta ekki andstæður. Þess vegna hefur umræðan um jafnvægi vinnu og einkalífs aldrei setið almennilega rétt í mínum kolli. Að þú eigir ekki að láta einkalífið hafa áhrif á vinnuna og að þú eigir svo ekki að sinna vinnunni utan hefðbundins vinnutíma - en þetta var gjarnan sagt þegar umræðan um jafnvægi vinnu og einkalífs var á miklu flugi fyrir nokkrum árum.

Að vera lifandi og að vera manneskja í vinnunni krefst þess að þú mætir að öllu leyti til vinnu, þú og lífið þitt.
Þú veist svo líka að það er ekki alltaf valkostur að skilja vinnuna eftir í vinnunni.

Þess vegna er ég hrifnari af því að við finnum leiðir til að samþætta þetta tvennt á sem heilbrigðastan hátt. Einkalífið og vinnuna. Á þann hátt að það komi sem best út fyrir alla aðila, á sama tíma.

Þú ættir ekki að þurfa að borga fyrir árangur á einu sviði lífs þíns með því að fórna árangri á öðrum sviðum lífs þíns.
Velgengni í starfi ætti ekki að vera á kostnað árangurs í samböndum eða í heilsu.

Kíktu endilega á þessar 6 leiðir fyrir þig til að vaxa og þróast í einkalífi og starfi - á sama tíma.

  1. Að vaxa í starfi.
    Hvaða hugmyndir ertu með fyrir starfið þitt eða starfsferilinn þinn? Viltu vera með eigin rekstur, sinna verkefnum í verktöku eða vinna fyrir einhvern annan eða aðra?
    Framtíð starfa, vinnustaða og vinnumarkaðar er að breytast.
    Hefur þú eitthvað leitt hugann að því nýlega hvernig þú vilt hafa þinn starfsferil? Og kannski endurskoðað hugmyndir þínar um hvað er mögulegt í þeim efnum? Ekki festast í gömlum hugmyndum og mundu að starfsferill er ekki bein lína. Þú getur tekið alls kyns U-beygjur og flakkað á milli þess að vera launþegi og sjálfstætt starfandi. Þú getur meira að segja blandað því saman á hverjum tíma.

  2. Að vaxa í samfélagi þínu
    Eitt af því sem getur haft áhrif á hvernig þú þróast á starfsferlinum eru tengsl þín. Horfðu á netið þitt og þau félög eða hópa sem þú tilheyrir. Ert þú félagi í einhverjum fagfélögum? Hvað ert þú að koma með og deila þar? Gætirðu undirbúið og haldið nokkrar kynningar. Boðist til að vera leiðbeinandi eða mentor fyrir aðra. Kannski taka þátt í sjálfboðavinnu í samfélaginu þínu, hvort sem er í hverfinu þínu eða öðrum samfélögum sem þú tilheyrir.
    Það mun styrkja ýmsa færniþætt sem geta hjálpað á starfsferlinum. Og byggja upp nýjar tengingar á sama tíma.

  3. Að vaxa í umhverfi þínu
    Hér hefurðu mikla möguleika á að ganga á undan með góðu fordæmi. Hvort sem hugsa um umhverfið í stærra samhengi, versla grænt, draga úr, endurvinna og endurnota.
    Eða að hugsa þér nær og taka fulla ábyrgð á eigin nærumhverfi. Bæði í vinnunni og heima.
    Að setja það upp á þann hátt sem hentar þér best, hjálpar þér að líða vel og vera og gera þitt besta.
    Vertu viss um að umhverfi þitt uppfylli það sem þú þarft til að vinna gott starf. Að lesa. Að hugleiða. Eða styðja hvers konar velgengni sem þú hefur eða stefnir að.

  4. Að vaxa í fjármálum þínum
    Að stýra eigin fjármálum til að vaxa í starfsferlinum og í lífinu er frábært.
    Til að vaxa í starfsferlinum verður þú að fjárfesta í sjálfum þér. Taktu ákveðna upphæð í hverjum mánuði og fjárfestu í eigin þróun þinni. Það geta verið bækur, vefnámskeið, ráðstefnur, tengslanet, ýmiss búnaður, útlit þitt o.s.frv.
    Það að huga vel að eigin fjármálum getur hjálpað þér að vaxa í einkalífinu. Ekki lifa um efni fram. Vertu með sparnaðarreikning. varasjóður getur hjálpað við hið óvænta og einnig til að viðhalda sjálfstæði þínu. Hugsaðu um peningana þína sem orku, til að hjálpa þér við að skapa minningar. Notaðu peningana þína til að ferðast, til að kynnast nýjum hlutum, til að hjálpa öðrum. Frábær leið til að vaxa sem manneskja.

  5. Að vaxa í heilsu þinni
    Að byggja upp góðan starfsferil er langhlaup. Og fyrir langhlaup þarftu seiglu og úthald. Þetta krefst þess að þú passir vel upp á heilsuna. Að halda sér í formi, líkamlega og andlega.
    Til að viðhalda góðri líkamlegri heilsu gætirðu viljað hlaupa. Hjóla eða ganga. Lyftingar eða sjósund. Gerðu jóga eða farðu að dansa.
    Til að viðhalda góðri andlegri heilsu gætirðu viljað lesa eða skrifa. Mæta á alls kyns fyrirlestra og námskeið. Vera í mastermind-hópi. Eða þjálfa heilann með því að gera æfingar í Lumosity.

  6. Að vaxa í samböndum þínum
    Sem manneskja hefur þú þörf fyrir samskipti við aðra. Þegar þú ert að vaxa og þróast í starfi og einkalífi. Þegar þú ert að sinna heilsunni og stunda hreyfingu.
    Eigin þróun og vöxtur verður skemmtilegri og meira gefandi þegar þú átt í góðum samskiptum við aðra. Hvort sem það er maki, foreldri, barn, vinnufélagi, nágranni eða aðrir. Að vinna að eigin þroska með öðrum hefur þannig tvöföld áhrif. Þú ert að vaxa og þróast og byggja upp sterkari sambönd á sama tíma.


Previous
Previous

Vertu stjórnandinn sem þig dreymdi um að hafa

Next
Next

Myndir þú ráða þig í starfið þitt?