Hvað mun einkenna árið 2022?
Í desember ár hvert kanna ritstjórar Linkedin meðal breiðs hóp sérfræðinga hvaða stóru hugmyndir þeir telja að muni skilgreina eða einkenna komandi ár.
Listinn sem Linkedin birti núna í desember 2021, fyrir árið 2022, telur 22 atriði, hér er stiklað á stóru á þeim hugmyndum:
1. Andleg heilsa
Í kjölfar þess að heimsbyggðin er búin að vera að eiga við heimsfaraldur í um það bil 2 ár, búin að vera í nokkurs konar trauma-ástandi og margir að glíma við sorg, kvíða og þunglyndi er mikilvægt að við förum nú öll að huga betur að andlegri heilsu.
Ef við gerum það ekki verður tjónið fyrir okkur öll gífurlegt og jafnvel að heil kynslóð nái sér ekki.
Eftirspurnin eftir þjónustu á þessu sviði, til að kljást við andleg mein, kulnun í starfi o.fl., er meiri en framboðið.
Þjónusta á þessu sviði á netinu og í gegnum öpp mun fara vaxandi.
Einnig mun aukast að nota öpp, snjallúr og annað búnað sem við göngum með á okkur í meðferðarskyni á þessu sviði.
2. Gullöld bóluefna
Þróun og framleiðsla bóluefna verður hraðari og virkni þeirra verður breiðari.
Kostnaður þeim tengdum fer lækkandi, þau verða ekki eins viðkvæm fyrir geymsluskilyrðum svo auðveldara verður að koma þeim til fátækari landa.
3. Bjartari tíð framundan fyrir framlínustarfsfólk
Starfsfólk í smásölu, þjónustu og tengdum greinum fer að verða betur metið samhliða því að fyrirtæki átta sig betur á mikilvægi góðrar mannlegrar tengingar við viðskiptavini.
Búast má við að laun í svona störfum fari hækkandi með aukinni eftirspurn eftir fólki með góðri hæfni á þessu sviði. Það þýðir líka að þetta fólk mun geta valið úr fleiri störfum og velur þá að vera á vinnustöðum þar sem vel er hugsað um það.
4. Vöruskortur og vandræði í framleiðslu
Heimsfaraldurinn, sveiflur í eftirspurn, breytingar á veðurfari, skortur á vinnuafli og fleira hefur haft mikil áhrif á vörukeðjuna. Við þurfum að bíða lengur eftir afhendingu þeirra vara sem við veljum versla.
Fyrirtæki munu færa framleiðsluna sína nær sér, finna leiðir til að lækka kostnað með snjöllum lausnum, sjálfvirknivæðingu o.fl., allt sem tryggir lækkun kostnaðar, aukin gæði og aukna eftirspurn eftir hæfu vinnuafli á hverju heimasvæði fyrir sig.
Samkeppni mun aukast alþjóðlega.
5. Samgöngur verða þægilegri – og minni
Fólk mun vinna meira heima og á deiliskrifstofum í hverfum borga, í bland við húsnæði vinnuveitenda. Fólk mun hafa meira frelsi með hvenær það mætir til vinnu og hvenær það fer heim, þannig að það verða ekki allir að ferðast til og frá vinnu á sama tíma.
6. NFT (Non-Fungible Token – Óbreytanleg tákn)
Bálkakeðjur og rafmyntir eru að breyta hugmyndum okkar um viði og eignarhald.
Þetta mun hafa áhrif á markað húsnæðislána þar sem með því að nota NFT geta þeir sem vilja lána peninga gert það án banka eða annarra milliliða, og þannig lækkað kostnað.
7. Prentum okkur út úr húsnæðisskorti
Á Evrópusvæðinu hefur húsnæðisverð farið upp að meðaltali um 34% frá árinu 2010 og víða er skortur á húsnæði og/eða skortur á húsnæði á þeim verðum sem stór hluti kaupenda ræður við.
Á síðasta ári var í Eindhoven í Hollandi flutt inn í fyrsta þrívíddarprentaða húsið í heiminum. Slík hús er nú hægt að prenta á 5 dögum og er þegar farið að nota þessa aðferð til að koma upp húsnæði fyrir fólk í Indlandi, Þýskalandi, Ítalíu og Bandaríkjunum. Á næsta ári er stefnt að því að í Austin í Texas verði komið upp heilt hverfi af þrívíddarprentuðum húsum.
8. Bláa fæðubyltingin er handan við hornið
Með auknum mannfjölda og spám um að íbúar heims verði orðnir 10 milljarðar árið 2050, auk breytinga á veðurfari sem valda óvissu í framleiðslu ýmissa fæðutegunda er viðbúið að fæðuskortur gæti orðið.
Bláa fæðan; Fiskur, vatnaplöntur, kræklingur og þörungar, gæti verið svarið.
Þessar „bláu“ fæðutegundir bjóða upp á bæði næringar- og umhverfislegan ávinning, sem gerir þær að góðum valkosti til að mæta fæðuþörf til framtíðar litið.
9. Leynimakk tengt launaumræðu hverfur
Um leið og samkeppni um hæft starfsfólk eykst, í bland við aukinn þrýsting á ábyrgð fyrirtækja þegar kemur að jafnrétti, kynja, kynþátta o.fl., mun leiða til þess að vinnuveitendur verða að geta upplýst um laun starfsfólks.
Gegnsæi í launagreiðslum eykst líka samhliða auknum jafnlaunavottunum.
Netflix hefur t.d. í mörg ár boðið starfsfólki aðgang að upplýsingum um laun samstarfsfólks.
10. Plast í vegagerð
Með auknum fólksfjölda eykst umferð og svo hefur aukning vályndra veðra, flóð og jarðskjálftar skemmt mikið af vegum og mannvirkjum þeim tengdum.
Vegir úr plasti ráða mun betur við ágang vatns, flóða og mikilla rigninga, en vegir sem lagðir eru malbiki. Auk þess sem vegir úr plasti endast betur, auðveldara er að gera við þá og auðveldara er að endurvinna þá. Með því að nýta plast í vegagerð má nýta mikið af því plasti sem fellur til og við höfum verið í vandræðum með að losna við.
11. Samtenging raforkukerfa í heiminum
Orkuþörf í heiminum gæti aukist um allt að 58% á næstu 30 árum. Í umhverfislegu sjónarmiði vilja lönd heimsins fara að nota meira rafmagn í stað annarra meira mengandi orkugjafa. Það mun leiða til þess að farið verður að gera meira af því að tengja saman raforkukerfi landa.
12. Íþróttafólk með aukin áhrif í liðum og deildum
Áhrif íþróttafólks um hvar og við hvaða aðstæður það æfir og keppir munu aukast, m.a. stórra samninga við sjónvarpsstöðvar og áhrif í gegnum samfélagsmiðla.
Eigendur deilda og liða hafa mun minni áhrif en áður.
13. 4 daga vinnuvika veitir samkeppnisforskot
Liðin er sú tíð þegar tryggð eða metnaður var metinn út frá fjölda vinnustunda. Fleiri eru að átta sig á því að þú getir staðið þig frábærlega í starfi án þess að hafa starf endilega í fyrsta sæti í lífinu. Fjöldi alþjóðlegra stórfyrirtækja, borgir og jafnvel heilu löndin finna nú að því að finna út hvernig best er að láta það ganga upp að hafa vinnuvikuna fjögurra daga, í stað fimm.
Þeir vinnustaðir sem munu bjóða upp á 4 daga vinnuviku munu hafa ákveðið samkeppnisforskot þegar kemur að því að ráða inn hæft fólk. Fjögurra daga vinnuvika þýðir 50 fleiri daga á ári fyrir starfsfólk til að gera það sem þeirra hugur stendur helst til, sem verður frábær leið til að laða að og halda í hæft fólk.
14. Viðbrögð við sjálfbærum fjárfestingum koma fram
Ekki er lengur í boði fyrir fyrirtæki að hafa hagnað sem helsta mælikvarða árangurs, án tillits til áhrifa á aðra þætti. Aukin krafa verður um gegnsæi í þessum fjárfestingum þannig að ekki verði hægt að slá ryki í augu fólks þegar kemur að sjálfbærum fjárfestingum, þær verða að vera nákvæmlega það, en ekki bara eitthvað til að líta vel út
15. Smásalar munu nota gamlar og nýjar aðferðir við að ná aftur til sín viðskiptavinum
Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á alla smásölu, þannig að margir færðu sig alveg á netið til að selja eða kaupa vöru.
Þeir sem vilja vinna til baka viðskiptavini sína munu beita ýmsum aðferðum, kannski fyrst og fremst persónulegri þjónustu og góðri upplifun. Verslunarmiðstöðvar munu vinna mikið með upplifun og breyta umhverfi sínu og útliti reglulega, eins og leiksviði þar sem vörumerkin eru leikararnir.
En samhliða verslun í raunheimum færum við okkur líka í sýndarveruleika og aukinn veruleika (augmented reality) þannig að viðskiptavinir geti prufað vöruna í umhverfi umfram það sem hægt er að bjóða upp á í verslunum. Sem dæmi er Nike komið í samstarf við netleikja-platformið Roblox, þannig að notendur geti spilað íþrótta-leiki og klætt karakterana sína í Nike-fatnað.
16. Borgir fara að nota rafmyntir og bálkakeðjur
Sem viðleitni til að auka traust og gegnsæi fara stærri aðilar eins og heilu borgirnar að nota Crypto. Það mun gera þeim kleift að stýra almanna eigum á mun skilvirkari og gagnsærri hátt, draga úr samhæfingarkostnaði og geta hraðað ákvarðanatökuferli verulega.
17. Stóru tæknirisarnir munu reyna – og klikka á – að eiga „meta-heiminn“ (e. metaverse)
Internetið, og það sem þar er, er í mikilli þróun. Samkeppnin á milli þess sem í boði á opnum og lokuðum veitum og platformum mun halda áfram. Það mun enginn einn geta átt meta-heiminn. Bæði kemur þar til ýmislegt sem tengist bálkakeðju-tækninni og svo hins vegar það að listamenn og tæknifólk sem býr til allt það sem er í metaheiminum er hvorki háð, né eign stóru tæknifyrirtækjanna. Þetta fólk hefur fjölmargar leiðir til að afla sér tekna og með aðstoð internetsins og annarrar tækni geta einstaklingar haft mikil áhrif, alveg eins og stórfyrirtækin.
18. Vinnuveitendur taka upp nýja nálgun svo að fólk með alls kyns frávik upplifi sig velkomið og tilheyri
Á árinu 2022 munu margir vinnuveitendur átta sig á því enn betur en fyrr að við þurfum að hafa fjölbreytni í vinnuaflinu, fjölbreytta hugsunum og ólíkar nálganir, til að ná góðum árangri. Þau fyrirtæki sem standa sig best gagnvart fjölbreytileika vinnuaflsins munu ná mestum árangri hvað varðar vinnuafl, til framtíðar litið. Þetta kallar á breyttar aðferðir í ráðningum. Það þarf að ráða vinnuafl út frá hæfni og möguleikum, ekki prófgráðum eða fyrri vinnuveitendum. Það þarf að vera hægt að sýna hæfni sína og möguleika á fleiri máta en í hefðbundnum atvinnuviðtölum. Breytingar á vinnuumhverfi, vinnutíma o.fl. verður nauðsynlegt til að ná í allt þetta fjölbreytta vinnuafl.
19. Við förum sjálf að þrífa hótelherbergin sem við gistum á
Í framhaldi af því að fólk notaði hótelherbergi í sóttkví og sá þá sjálft um að skipta á rúmunum, uppvask o.fl. á herberginu, sem og í framhaldi af skorti á starfsfólki á hótel horfa nú hóteleigendur til þess möguleika að bjóða afslætti eða inneignir fyrir „sjálfbjarga“ hótelgesti.
Þeir sjá þetta sem góða leið til að lækka kostnað fyrir báða aðila og mögulega góð umhverfisleg áhrif en árið 2020 byrjuðu Omni Hotels & Resorts í Bandaríkjunum að gefa til góðgerðarmála fyrir hvern gest sem afþakkaði dagleg herbergisþrif.
20. Podcöst munu gefa hugmyndir að bíómyndum
Podcöst eru miðill sem hefur vaxið mjög hratt og er enn mjög vaxandi. Þessi markaður á enn eftir að þróast og þroskast en viðbúið er að auglýsingatekjur þar eigi eftir að vaxa og að hugmyndir að bíómyndum verði sóttar í öll þau fjölmörgu podcöst sem nú eru í boði.
21. Efnafólk heimsins mun lýsa yfir „sjálfs-forræði“
Ríkasta fólk heims hefur undanfarin ár verið að slíta sig frá þeim löndum þar sem það hefur ríkisborgararétt, með því að dreifa eigum sínum til annarra landa og auknum ferðalögum um heiminn. Heimsfaraldur, aukin pólitísk áhætta í mörgum löndum, sérstaklega tengt reglugerðum um skattamál, rafmyntir o.fl., ásamt fleiri þáttum mun leiða til þess að algengara verður að fólk búi í öðrum löndum en þar sem það hefur ríkisborgararétt eða afli sér fleiri en eins ríkisborgararétts.
22. Öflug fyrirtæki munu henda tortryggni sinni til hliðar
Í kjölfar heimsfaraldurs fara margir að horfa meira til raunverulegs og langtíma tilgangs. Of mörg fyrirtæki eru ekki að kveikja á þessu og eru enn að einblína á skammtíma gróða og hagnað hvers rekstrarárs. Vinnuafl hefur því orðið tortryggnara á marga vinnuveitendur, sem hefur m.a. slæm áhrif á samvinnu, vinnustaðarmenningu, sköpunargleði og kraft. Þau fyrirtæki sem ná ekki að endurhugsa sig, til að draga úr þessari tortryggni vinnuaflsins, munu á komandi árum standa frammi fyrir ákveðinni hættu um framtíð sína. Leiðtogar þurfa að byggja upp traust, þá mun starfsfólkið og vinnuaflið allt stíga upp og fyrirtækin dafna.
—-
Ef þig vantar hjálp við að auka framtíðarlæsi þitt og búa þig og þinn vinnustað betur undir framtíðina hafðu þá endilega samband.
Hér má lesa meira um mig, minn bakgrunn og mína þjónustu,
einnig þá fyrirlestra, námskeið og aðra þjónustu sem ég býð upp á fyrir ýmsa hópa, félög og fyrirtæki
sem og þjónustu sem ég býð einstaklingum og stjórnendum.
Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.
Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.