Að endurhugsa og endurhanna störf - eins og vörur
Ein helsta áskorun vinnustaða er að skapa starfsumhverfi sem laðar að og heldur í hæft fólk. Starfsumhverfi þar sem starfsánægja, virkni og framleiðni starfsfólks er mikil og litlar líkur á óæskilegri starfsmannaveltu eða kulnun.
Nú þegar vinnuafl hefur meiri völd á vinnumarkaði en nokkru sinni, er nauðsynlegt að endurhugsa og endurhanna störf og starfsumhverfi.
Umræða hefur aukist um ávinning þess að horfa á störf sem vörur eða þjónustu, sem einstaklingar geta valið um, líkt og neytendur á markaði.
Þessi nálgun kallar á grundvallar endurhugsun á því hvernig fyrirtæki og stjórnendur hanna og bjóða störf og starfsumhverfi til að laða að og halda í hæft starfsfólk.
Starfið sem vara
Rétt eins og fyrirtæki hanna og markaðssetja vörur til neytenda, þurfa fyrirtæki nú að rannsaka og skilja hverju einstaklingar eru að leita eftir. Aðlaga svo störf, starfsumhverfi og starfstilboð að því og markaðssetja til mögulegra og núverandi starfsmanna.
Sjálfræði, sveigjanleiki, tilgangur, jafnvægi vinnu og einkalífs, stuðningur við velsæld, tækifæri til starfsþróunar, góð stjórnun og fyrirtækjamenning verða sífellt mikilvægari í ákvörðunarferli einstaklinga á vinnumarkaði.
Einstaklingar sem verja meira en helmingi af vökutíma sínum á hverjum sólarhring við að afla sér lífsviðurværis velja nú ákveðnar en áður að gera það á vinnustöðum þar sem fyrrgreindir þættir eru í boði, ef þeir velja þá ekki að gera það í gegnum sjálfstæð störf.
Sérsnið og sveigjanleiki
Í dag eru neytendur á neytendamarkaði orðnir vanir því að geta valið sér sérsniðnar þjónustur og vörur. Mismunandi áskriftarleiðir að ýmsum þjónustum, vörur þar sem hægt er að púsla saman ólíkum einingum, litum og efni og láta svo jafnvel merkja sér vöruna.
En hönnun starfa og starfsumhverfis hefur ekki verið að þróast eins hratt. Starfsfólk hefur oft fáa valkosti um starfshlutfall, starfsumhverfi, verkefni eða hlunnindi. Enn er ríkjandi sú hugsun að þessir þættir þurfi að vera eins fyrir alla, jafnvel þó þarfir og væntingar fólks séu ólíkar.
Rétt eins og neytendur kunna að meta möguleikann á því að geta valið sér sérsniðnar vörur, þá meta einstaklingar störf sem hægt er að aðlaga að þörfum og aðstæðum þeirra, og væntingar um slíkt eru að aukast.
Bjóða þarf meiri fjölbreytni þegar kemur að sveigjanlegum vinnutíma, fjarvinnumöguleikum, sérsniðnum stuðning af ýmsu tagi, hvort sem það snýr að heilsu, starfsþróun eða öðru. Með því að bjóða upp á slíka fjölbreytni og sveigjanleika geta vinnustaðir aukið starfsánægju, virkni og tryggð.
Hlutverk stjórnenda
Stjórnendur gegna lykilhlutverki í að endurhugsa og endurhanna störf. Það krefst nýrra viðhorfa, nýrrar nálgunar og skapandi hugsunar. Oft þarf að láta af fyrri hugmyndum um störf og stjórnun.
Þetta gæti falið í sér að brjóta störf upp í verkefni, innleiða verkefnamiðaða vinnu og virkan innri vinnumarkað. Vera með þverfagleg og jafnvel sjálfstýrandi teymi. Bjóða upp á fjölbreytilega fjarvinnu, hlutastörf og verkefnavinnu.
Stjórnendur þurfa því að fara að starfa meira eins og vörustjórar og þjálfarar. Vera stöðugt að endurskoða og bæta störf, starfsumhverfi og stjórnun, út frá endurgjöf, væntingum og þörfum starfsfólks.
Meta svo út frá gögnum og mælingum hvað virkar best fyrir vinnustaðinn og einstaklingana.
Áhrif á árangur
Þegar störf eru skoðuð sem vörur og starfsmenn meðhöndlaðir sem viðskiptavinir geta áhrifin verið mjög áhrifarík.
Starfsfólk sem finnur að þörfum þeirra og óskum er mætt er líklegra til að upplifa starfsánægju og hvatningu, vera skilvirkara, skila meiri framleiðni og vera tryggara vinnustaðnum.
Niðurstaða
Hugmyndin um störf sem vörur er ný og öflug nálgun.
Með því að endurhugsa og endurhanna störf geta vinnustaðir skapað umhverfi þar sem starfsfólk er ánægðara, virkara og tryggara.
Þessi nálgun gagnast ekki aðeins einstaklingunum heldur eykur einnig samkeppnishæfni vinnustaðarins um hæft fólk og styður þannig við velgengni hans á samkeppnismarkaði.
* Þetta blog birtist áður sem grein í Viðskiptablaðinu þ. 10. desember 2024
Ef þinn vinnustað vantar stjórnunarráðgjöf, stjórnendaþjálfun eða fræðslu fyrir starfsfólk þá ekki hika við að hafa samband.
Herdís Pála er reyndur og farsæll stjórnandi sem hefur sinnt ráðgjöf og þjálfun fyrir fjölmarga vinnustaði og stjórnendur.
Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.
Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.