Er spennan fyrir starfinu farin?
Er spennan fyrir starfinu farin?
Væri ekki gott að geta fundið aftur neistann og spenninginn fyrir starfinu þínu, svona eins og þér leið við upphaf starfsins – jafnvel þó þú sért búinn að vera lengi í starfinu?
Auðvitað eru dagarnir misjafnir og ekkert starf, eða alla vega fá, eru þannig að allir dagar séu eintóm gleði og stemming.
En ef dögunum þar sem er gaman er farið að fækka, dögunum þar sem þér finnst þú hafa áhrif, vera að læra og vaxa, og dögunum að fjölga þar sem þú veltir fyrir þér að skipta um starf, þá er kannski kominn tími á aðeins markvissari pælingar.
Það getur verið gott að fara í gegnum svipaða æfingu og hjón í hjónabandsráðgjöf fara gjarnan í gegnum, að rifja upp hvað þér fannst áhugavert við starfið í upphafi, bæði af hverju þig langaði í starfið, af hverju þú réðst þig í starfið og hvað gerði starfið spennandi í upphafi.
Er þetta bara starfið eða ert þetta þú?
Ef það ætti að ráða í starfið þitt núna værir þú þá fyrsti valkostur?
- Hugsaðu um frammistöðu þína síðustu 30 daga eða síðustu 3 mánuði, ef vinnuveitandi þinn þyrfti að íhuga hvort hann ætti að halda þér í starfi að hvaða niðurstöðu heldur þú að hann myndi komast?
Prófaðu líka að spyrja þig þessara spurninga:
Ertu farinn að sætta þig við að skila af þér verkefnum sem eru unnin „nógu vel“, ertu hættur að hugsa um að skila af þér verkefnum sem eru mjög vel unnin eða fara fram úr væntingum?
Gerir þú bara akkúrat það sem er krafist af þér, ertu hættur að taka extra skrefin?
Ertu hættur að hugsa um hvernig þú kemst lengra á vinnustaðnum? Ertu meira að hugsa um hvernig þú getur haft það þægilegt í núverandi aðstæðum en hvernig þú getur vaxið í starfinu?
Ertu hættur að vinna í tengslamyndun á vinnustaðnum? Er fólk hætt að bjóða þér með í mat eða kaffi eða hitting utan vinnu, af því að þú segir hvort sem er oftast nei?
Ertu hættur að vinna í að koma hugmyndum þínum í framkvæmd? Lætur þú nýju hugmyndir þínar rykfalla sem minnispunkt á blaði eða í tölvunni?
Ertu hættur að læra? Upplifir þú að þú sért ekki alveg jafn mikið „up to date“ og áður? Ertu hættur að vera spenntur fyrir tilhugsuninni um að læra nýja hluti, tileinka þér nýja færni?
Ef þú svaraðir mörgum spurningum játandi er kannski ekki alveg ástæða til að örvænta strax, þar sem eins og áður sagði, dagarnir eru misjafnir. En ef þetta er orðið stöðugt ástand hjá þér þá er kannski vert að skoða hvað hefur breyst frá því að þú réðir þig í starfið og hvort þú getir náð að kynda aftur undir neistanum sem var í upphafi.
Ímyndaðu þér að í dag sé fyrsti dagurinn þinn í starfinu þínu, og að þú vitir allt um það sem þú veist í dag. Sjáðu fyrir þér tækifærin sem felast í því og hversu mikil áhrif það gæti haft.
Ertu tilbúinn til að labba í burtu frá þessu starfi – eða viltu endurstaðfesta skuldbindingu þína gagnvart starfinu og massa það sem sá frábæri fagmaður sem þú ert?