Mjúkir hæfniþættir - alveg grjótharðir!
Þegar rætt er um hæfni sem nauðsynleg er talin til að leysa ýmis viðfangsefni eða sinna tilteknum störfum þá er þessum hæfniþáttum gjarnan skipt í tvo flokka.
Í fyrsta lagi er talað um hæfni sem er þannig að það er auðvelt að skilgreina og mæla hana.
Þessi hæfni er oftast fengin í gegnum nám eða þjálfun í starfi. Hún passar stundum bara í tiltekin störf og nýtist þá gjarnan illa eða ekki í öðrum störfum, færist ekki vel á milli starfa, þó ekki algilt.
- Á ensku kallast þetta hard skills.
Dæmi um þetta er þekking á tilteknum tölvukerfum, bókhaldsþekking, meirapróf, þekking og réttindi til pípulagna o.fl.
Í öðru lagi er talað um hæfni sem getur verið erfiðara að skilgreina eða mæla.
Þessi hæfni liggur oft misvel við einstaklingum en þó þannig að hana er hægt að styrkja hjá öllum einstaklingum. Hún passar í flest eða öll störf og færist því vel á milli starfa.
- Á ensku kallast þetta soft skills.
Dæmi um þetta er hæfni í mannlegum samskiptum, sköpunargáfur, tilfinningagreind o.fl.
Soft skills, við eigum því miður ekki gott íslenskt orð fyrir þá, eru þættir sem munu hjálpa til við að laða að og halda í vinnuafl framtíðarinnar.
Kröfur fólks til vinnustaða og stjórnenda sem það vinnur fyrir eru að breytast og því þurfa stjórnendur hugrekki til að láta af gömlum aðferðum, hversu góðar sem þær kunna að hafa verið einhvern tíma, og taka upp nýjar.
Dæmi um þessa mjúku hæfniþætti eru til dæmis:
Leiðtogahæfni
Dæmi: Áhugi á og umhyggja fyrir öðrum, áhugi á og vilji til að styðja aðra og leyfa þeim að njóta heiðurs af eigin verkum, hlustun, auðmýkt, næmni fyrir fjölbreytileika, sveigjanleikiSamskiptahæfni
Dæmi: tjáning, hlustun, geta séð hlutina frá sjónarhornum annarra, hæfni til að koma skilaboðum á framfæri, hæfni til að hvetja aðra og kveikja áhugaSamvinnuhæfni
Dæmi: geta séð sjónarhorn annarra, geta gert málamiðlanir, þolinmæði, umhyggja fyrir öðrumHæfni í að setja saman og halda utan um öflugt teymi
Dæmi: geta séð ólíka styrkleika ólíkra einstaklinga, geta gert málamiðlanir, geta útdeilt verkefnum út frá styrkleikum, samningatækniAðlögunarhæfni
Dæmi: geta til að forgangsraða út frá aðstæðum, geta til að halda ró í erfiðum aðstæðum, geta til að taka ákvarðanirSköpunarhæfni
Dæmi: geta hugsað út fyrir það sem er þekkt, geta komið með nýjar lausnir, innsæi, þora að spyrja spurninga, gera tilraunir og læra af mistökumTilfinningagreind
Dæmi: hlustun, áhugi á og geta til að skilja hugsanir, tilfinningar og sjónarmið annarra, geta til að samgleðjast, geta og vilji til að finna hvað fólk á sameiginlegt og brjóta upp fordómaHæfni til að greina og leysa úr flóknum viðfangsefnum
Dæmi: geta til að greina aðstæður, gögn o.fl., samningatækni, skapandi hugsun
Ég held að það hljóti allir að sjá að þessir hæfniþættir eru mjög mikilvægir og það sem er sérstaklega gott við þá að þeir eru ekki bundnir við tiltekin störf eða starfsemi.
Einstaklingar með þessa hæfni geta því mjög vel færst á milli ólíkra starfa og starfsgreina.
World Economic Forum gaf nýlega út skýrslu um þá hæfniþætti sem þau telja að verði mikilvægastir eða eftirsóttastir árið 2025. Á topp-10 listanum í skýrslunni eru hæfniþættir eins og seigla, sveigjanleiki, sköpunarhæfni, leiðtogahæfni, virk þekkingaröflun, félagsleg áhrif o.fl.
Góðu fréttirnar í þessu öllu saman eru þær að ef þú telur að þú getir bætt þína hæfni í fyrrgreindum þáttum þá eru margar leiðir færar til þess.
Þú gætir lesið bækur, farið á námskeið, hlustað á fyrirlestra á netinu eða nýtt þér þjónustu markþjálfa.
—-
Ef þig vantar hjálp við að þjálfa og styrkja þína Power Skills hafðu þá endilega samband.
Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.
Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.