Hybrid-hugleiðingar

Þessar hugleiðingar eru skrifaðar á síðasta degi 4 vikna sumarfrís míns og langar mig að deila með ykkur ýmsum hugleiðingum sem hafa verið að renna í gegnum huga minn síðustu vikur, bæði tengt vinnu og lífinu almennt.
Þetta eru því svona hybrid-hugleiðingar, eða blandaðar hugleiðingar, en koma svo sannarlega inn á Hybrid-vinnumódel, sem svo mikið eru í umræðunni í dag, sjá hér neðst.

Sumarfríið mitt

Byrjum aðeins á sumarfríinu mínu. Ég ákvað að taka mér 4 vikna sumarfrí en svo langt sumarfrí hef ég sennilega ekki tekið sl. 15 ár eða svo! Það var mjög kærkomið og mæli ég svo sannarlega með að fóllk taki sér góð sumarfrí. Ég var líka miklu duglegri að láta símann og tölvupóstinn vera, en í mörgum fyrri sumarfríum, og mæli ég líka með því, ég vissi vel að það yrði hringt í mig ef mín væri þörf einhvers staðar.
- Í nokkur ár reyndi ég að hafa það þannig að ég tók 3 vikur í sumarfrí og ætlaði svo alltaf að taka 1 viku í frí hina 3 ársfjórðungana, en því miður gekk það nú sjaldnast eftir. Held þó enn að það sé frábær pæling.

Ég átti sem sagt mjög gott sumarfrí.
Ég las og hugsaði helling, enn og aftur, bæði tengt vinnu og einkalífi.
Svo gerði ég líka alls konar og svo var ég heilmikið í því að vera… já bara að vera.

Ég fór til útlanda, byrjaði í golfi, hjólaði, gekk, hugaði að heilsunni, spilaði mikið Sequence, púslaði og átti gæðatíma með eiginmanninum, fjölskyldunni og vinum.

Fyrir nú svo fyrir utan það að klára handritið að bókinni okkar Árelíu Eydísar sem koma á út í september - og tengist m.a. þessum Hybrid-pælingum mínum núna.

Hybrid-hugleiðingar í vinnusamhengi

Við skrif okkar Árelíu lögðumst við í mikla rannsóknarvinnu. Framkvæmdum eigindlegar og megindlegar rannsóknir og lásum mikið.

Við allan lesturinn komu í ljós nokkrir þræðir, eða nokkur hugtök sem eru einna mest í umræðunni núna, þegar kemur að vinnu, vinnustöðum, vinnuafli og vinnumarkaði.
Eitt af þeim er Hybrid working-model - eða blendings-vinnumódel. - Eitt af þessum hugtökum sem ekki er til gott orð fyrir á íslensku.

Það er alla vega ljóst að vinnumódel sem kom fram í annarri iðnbyltingunni, þ.e. að allir mæti á vinnustað og vinni þar svona ca. kl. 9-5, 5 daga vikunnar, er ekki endilega vinnumódel sem hentar best núna á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar.

Við þurfum að hrista upp í alls kyns gömlum viðmiðum og hugmyndum um hvernig við vinnum, skipuleggjum vinnu og verkefni, stjórnum o.s.frv..
Það er mikið rætt um að vinnustaðir þurfi að hanna sín eigin Hybrid-módel, að þau geti ekki endilega tekið upp sama módel og aðrir nota.
Ég held reyndar að það eigi ekki endilega að vera eitt hybrid-módel fyrir hvern vinnustað, heldur mörg Hybrid-módel, hönnuð fyrir ýmsar einingar vinnustaðarins, teymi eða einstaklinga. Sannarlega getur verið sterkur samhljómur með þeim og margt eins í þeim.

Það eru hins vegar sömu atriðin á flestum vinnustöðum sem skoða þarf við hönnum hvers Hybrid-módels, til dæmis tími og staðsetningar - sem leiðir það af sér að endurhanna getur þurft ýmsar reglur, verklag o.fl.

Annað hugtak eða frasi sem er mikið í umræðunni núna er The Great Resignation - eða stóra uppsagnarbylgjan (heldur ekki gott að þýða þetta hugtak) en ýmsar kannanir hafa sýnt fram á að nokkuð hátt hlutfall vinnandi fólks getur hugsað sér að skipta um starf með haustinu.

Ég held að örfá dæmi um hvernig best væri fyrir vinnustaði að sporna gegn miklum uppsögnum hjá sér séu t.d.:

  • Að hugsa vel um starfsfólkið á vinnustaðnum. Styrkja þá upplifun starfsfólks að það tilheyri á vinnustaðnum.

  • Hafa velsæld starfsfólks í huga við skipulag verkefna, vinnutíma, hönnun vinnuumhverfis o.fl. Einnig að styðja við heilbrigða samþættingu vinnu og einkalífs.

  • Byggja upp gott og gagnkvæmt traust. Ef yfirmenn treysta ekki starfsfólki í fjarvinnu eða annað þá er spurning af hverju þeir eru með það í vinnu…

Þeim fer nefnilega fjölgandi þeim einstaklingum, sem hafa góða menntun og góða reynslu sem vilja hann sitt vinnumódel sjálfir - og ef það verður ekki í boði á vinnustöðum þá fara þeir að vinna sjálfstætt eða gigga.
Þessir einstaklinga vilja nýta menntun sína, þekkingu og reynslu þannig að hún nýtist jafnt vinnuveitendum eða verkkaupum og þeim sjálfum, að þeir hafi allan þann sveigjanleika og frelsi sem þeir vilja, til að lifa því lífi sem þeir vilja.

Þetta gæti orðið mörgum vinnustöðum og stjórnendum mikil áskorun - en sannarlega eitthvað sem á að vera hægt að vinna vel með, sé opinn hugur til staðar.

360° Árangur

Smá viðbót hér í lokin. Þau ykkar sem hafið fylgst með mér í einhver ár hafið örugglega oft heyrt mig tala um 360° árangur, hvernig árangur á einu sviði lífsins megi ekki vera á kostnað árangurs eða velgengni á öðrum sviðum lífsins. Þau svið sem ég einblíni mest á eru Starf, Samfélag, Umhverfi, Fjármál, Heilsa og Sambönd.
- Í sumarfríinu held ég að ég hafi náð að hafa þessa þætti í nokkuð góðu jafnvægi og að með lestri mínum og grúski hafi ég jafnvel styrkt enn betur stoðirnar undir jafnvægi í mínum árangri, þ.e. á öllum sviðum míns lífs.

  • Ég las heilmikið um þætti sem tengjast starfinu mínu, sjá hér fyrir neðan.

  • Ég hugaði að og ræktaði ýmis samfélög sem ég tilheyri (fjölskyldan, nágrannar, vinahópar o.fl.). Hugaði einnig að næstu sjálfboðaliðaverkefnum, en í gegnum tíðina hef ég verið nokkuð í slíkum verkefnum.

  • Umhverfismálin skoðaði ég á stóran og smáan hátt.
    Fyrir umhverfið í stóra samhenginu gekk og hjólaði oft í stað þess að nota bílinn (á samt rafmagnsbíl sem er ekki svo slæmur fyrir umhverfið) en í smærra samhengi þá kláraði ég ýmis atriði á heimilinu og gerði mitt nærumhverfi því aðeins betra fyrir mig.

  • Ég var heilmikið að skoða fjármálin mín, hvernig ég get gert þau enn betur, með framtíðina og fjárhagslegt frelsi og öryggi í huga.

  • Ég las mér til um, talaði við fólk og horfði á heimildamyndir um ýmislegt sem tengist minni líkamlegu og andlegu heilsu og tók nokkrar ákvarðanir tengdar heilsunni. Tel mig vera við ágætis heilsu en ég get vel gert betur þar, bæði hvað varðar líkamlega og andlega heilsu. Kynnti mér meira að segja nám í einkaþjálfun og er að spá í hvort ég ætti að skella mér í slíkt nám til að skilja enn betur ýmsa þætti tengt heilsunni.

  • Svo var ég heilmikið því að rækta alls kyns sambönd við vini og vandamenn, en líka að setja mörk í ýmsum samböndum, þess þarf víst líka.

Ég vona svo innilega að þið hafið öll líka átt gott sumarfrí og hafði mætt endurnærð og spennt í vinnuna aftur að loknu fríinu!

—-

Ef þig vantar hjálp við að taka næstu skref á þínum starfsferli, eða að vinna í þínum 360° árangri hafðu þá endilega samband.


Hér má lesa meira um mig, minn bakgrunn og mína þjónustu,

  • einnig þá fyrirlestra, námskeið og aðra þjónustu sem ég býð upp á fyrir ýmsa hópa, félög og fyrirtæki

  • sem og þjónustu sem ég býð einstaklingum og stjórnendum.

Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.

Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.


Heart Based Leadership Model 1_FullCopyright_ISL.png

Módelið mitt

Þetta módel setti ég saman fyrir nokkrum árum,
þegar ég var sem mest að coacha eða markþjálfa.

Mínir viðskiptavinir voru helst stjórnendur sem vildu styrkja sig í því hlutverki á sama tíma og þeir vildu huga að eigin lífsgæðum.
Einnig fólk á krossgötum á sínum starfsferli.


Ert þú með allt á hreinu um þá byltingu sem er að verða á vinnumarkaðnum?

Ratar þú um völundarhús tækifæranna?

Kannt þú að taka þátt á markaðstorgi þekkingar?

Veist þú hvað giggari er?

Vilt þú auka lífsgæði þín?

Kíktu endilega á þessa bók og fáðu svörin.

 

Previous
Previous

Ekki vera starfið þitt!

Next
Next

Mjúkir hæfniþættir - alveg grjótharðir!