Forstjórinn sem sendi alla millistjórnendur í vikufrí.
Fyrir mörgum árum las ég grein þar sem sögð var saga sem mér er mjög minnisstæð.
Sagan sagði frá framleiðslufyrirtæki þar sem reksturinn var ekki að ganga nógu vel og birtist það m.a. með þessum hætti:
Mikið var um mistök í framleiðslunni, með tilheyrandi kostnaði.
Mikið var um seinar afhendingar á pöntunum, með tilheyrandi óánægju viðskiptavina og kostnaði.
Starfsánægja var lág og starfsmannavelta mikil, með tilheyrandi kostnaði.
Forstjórinn, sem mig minnir að hafi jafnframt verið eigandinn, var búin að reyna allt sem honum hugkvæmdist til að koma hlutunum í betra horf en ekkert virkaði.
Ráðgjafi kallaður til - var það gáfulegt?
Þá réði hann til sín ráðgjafa, sem hann trúði að gæti hjálpað sér að snúa hlutunum til betri vegar.
Eftir nokkur samtöl og greiningarfundi ráðgjafans með forstjóranum ákveður ráðgjafinn að taka sér góðan tíma til að labba um vinnustaðinn og fylgjast með daglegri starfsemi, hvernig hlutirnir væru raunverulega að ganga fyrir sig.
Nokkrum dögum síðar, á fundi ráðgjafans og forstjórans, leggur ráðgjafinn til að allir millistjórnendur verði sendir heim í vikufrí.
Forstjórinn hélt að nú hefði hann gert mistök með að ráða þennan ráðgjafa, ástandið hlyti að verða enn verra ef stjórnendurnir yrðu ekki til staðar í heila viku, og tók því ekki vel í hugmynd ráðgjafans.
Ráðgjafinn var mjög ákveðinn í þessu og bað forstjórann um að treysta sér, sem hann ákvað svo með semingi að gera.
Hvað gerðist þegar stjórnendurnir fóru í frí?
Á meðan millistjórnendurnir voru í fríinu var ráðgjafinn á staðnum og hélt áfram að labba um vinnustaðinn og fylgjast með daglegri starfsemi og hvernig hlutirnir væru að ganga fyrir sig í fjarveru stjórnendanna.
Í sumum einingum og teymum gekk allt mjög vel og eins og ekkert hefði breyst.
Í öðrum einingum og teymum fór allt úr skorðum.
Að liðinni þessari viku lagði ráðgjafinn til að stjórnendurnir sem voru yfir einingunum og teymunum þar sem allt gekk vel myndu halda störfum sínum óbreyttum en að stjórnendurnir sem voru yfir einingunum og teymunum þar sem allt fór úr skorðum myndu að óbreyttu ekki halda störfum sínum sem stjórnendur.
Þetta fannst forstjóranum eitthvað skrýtið, það hlyti einmitt að vera meiri þörf fyrir stjórnendurna þar sem allt fór úr skorðum, þeir væru greinilega að láta hlutina ganga með störfum sínum.
Ráðgjafinn sannfærði forstjórann um að það væri einmitt öfugt.
Hvað einkennir góða stjórnendur?
Bestu stjórnendurnir, að mati ráðgjafans, væru þeir sem væru búnir að fara skýrt yfir með sínu fólki til hvers væri ætlast af því, hver markmiðin væru, valdefla það til að taka sjálfstæðar ákvarðanir með hvetjandi og styðjandi endurgjöf, og nýta þekkingu sína og reynslu til að bregðast við öllu því sem upp getur komið.
Á meðan stjórnendur sem alltaf þyrftu að vera á staðnum svo eitthvað gengi væru í raun flöskuhálsar í starfseminni, með allar upplýsingar og vinnureglur í eigin kolli, með ósjálfstætt og óánægt starfsfólk og í raun væru þeir að valda ákveðinni rekstraráhættu.
Góðir stjórnendur lesa jafnt í þarfir rekstursins og þarfir og væntingar starfsfólks.
Góðir stjórnendur lesa í framtíðina, sjá hvað er að breytast og hvernig stjórnun þarf að breytast samhliða öðrum breytingum, hvort sem það eru tæknilegar breytingar, samfélagslegar breytingar eða annað, aðferðir og nálgun sem einhvern tíma virkaði vel virkar ekki endilega vel um alla framtíð.
Ný nálgun við stjórnun eða markþjálfun, til aukinnar framleiðni?
Þessi saga hér að ofan rifjaðist upp fyrir mér fyrir stuttu þegar ég las nýlega grein á vef Fortune.
Greinin segir frá fyrirtæki sem spurði alla nýráðna hvað það væri sem þau teldu sig þurfa frá yfirmanni.
Svörin voru flest á þau leið að þeim vantaði endurgjöf, aðstoð við markmiðasetningu, tækifæri til að þróast faglega og persónulega og sjálfræði í starfi.
Þegar þessi svör lágu fyrir skipti fyrirtækið stjórnendum út fyrir markþjálfa, eða coacha, og við það jókst framleiðni um 20% og starfsánægja einnig.
Fyrirtæki þetta hafði einn markþjálfa fyrir hverja sex starfsmenn og eina verkefni markþjálfanna var að hjálpa starfsfólki að auka framleiðni sína.
Þegar eitthvað kemur upp á leitar starfsfólk nú til markþjálfa en ekki yfirmanns.
Munurinn er sá að markþjálfinn vinnur að því að styðja og valdefla starfsfólkið til að finna sína leið áfram, á meðan stjórnendur eiga það gjarnan til að stjórna fólki ofan frá.
Með þessu verður til vinnustaðarmenning þar sem allt starfsfólk vinnur að því að verða betri í því sem þau eru að gera.
Í þessu fyrirtæki fær starfsfólk líka mánaðarlega upphæð sem það getur varið til að kaupa sér námskeið og bækur, gjarnan byggt á ábendingum frá markþjálfunum. Að auki eru í boði alls kyns innanhúss námskeið, um atriði sem markþjálfarnir hafa séð að nýtast hópum starfsfólks eða starfsmannahópnum í heild.
Með þessari nálgun og áherslu á framleiðni er starfsfólki hjálpað við að tengja sín daglegu störf við hlutverk vinnustaðarins.
Við þessa breytingu fór framleiðnin og helgunin upp, ekki síst vegna þess að þar sem starfsfólk upplifir að því sé treyst og að það njóti stuðnings þá eykst helgun. Að auki fækkaði veikindadögum, starfsmannavelta minnkaði o.fl.
Þetta lýsir auðvitað nokkuð róttækri breytingu og ekki víst að öll fyrirtæki séu tilbúin til að ganga jafn langt og hér er sagt frá.
En ég vil samt hvetja alla vinnustaði til að vera vakandi fyrir því að vera stöðugt að endurskoða og þróa nálgun sína við stjórnun starfsfólks. Hluti af því gæti verið ný nálgun við stjórnendaþjálfun, að aðstoða stjórnendur við að skoða eigin hæfni, hugarfar og hegðun og hversu vel hún styður við árangur og ánægju á vinnustaðnum.
—-
Ef þinn vinnustað vantar stjórnunarráðgjöf eða stjórnendaþjálfun þá ekki hika við að hafa samband.
Herdís Pála er reyndur og farsæll stjórnandi sem hefur sinnt ráðgjöf og þjálfun fyrir fjölmarga vinnustaði og stjórnendur.
Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.
Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.