Taktu betri ákvarðanir
Fyrir einhverjum árum síðan sá ég bíómynd sem heitir “I´m Fine, Thanks” og án þess að ég fari hér djúpt í innihald hennar þá er hún í raun samsett úr viðtölum við fólk víða um Bandaríkin.
Í viðtölunum fer fólk stuttlega yfir sögu sína, hvernig lífi það hafði lifað og með hvaða hætti það hafði lengst af tekið ákvarðanir sínar. Svo hafði komið að því hjá þeim öllum að þau lentu á einhvers konar krossgötum og tóku þá stórar ákvarðanir fyrir sig með allt öðrum hætti en þau höfðu áður gert.
Þetta fólk átti sem sagt allt sameiginlegt var að það hafði lifað „drauma-lífi“ samkvæmt almennt viðurkenndum viðmiðum
– en samt var alltaf eitthvað sem vantaði.
Þegar á krossgöturnar kom fór þetta fólk að skoða hver þau væru sem einstaklingar, fyrir hvað þau vildu standa, og tóku svo ákvarðanir, og gerðu breytingar hjá sér, út frá því.
Ákvarðanir og væntingar samfélagsins
Ein setning sem sögð var í myndinni situr alltaf í mér. Það var maður í myndinni sem sagðist hafa ákveðið að hætta að taka ákvarðanir út frá væntingum samfélagsins, eða
„stop outsourcing his decisions to society´s expectations“
Út frá hverju tekur þú ákvarðanir?
Ert þú með einhvers konar skapalón eða viðmið sem þú mátar ákvarðanir inn í, þegar þú vegur og metur kosti og galla þeirra valkosta sem þú hefur þegar þú tekur ákvarðanir?
Þú tekur um það bil 35.000 ákvarðanir á dag
- spurning hvort það geti falist tækifæri í því fyrir þig að pæla aðeins betur í þeim, leggja aðeins meiri hugsun í þær?
Leiðarljós fyrir ákvarðanatöku
Á sumum námskeiðum sem ég held hvet ég fólk til að greina eigin gildi, líkt og margir hafa tekið þátt í á sínum vinnustöðum, þ.e. að greina gildi vinnustaðarins, og nota svo sín eigin gildi sem leiðarljós við alla ákvarðanatöku, jafnt í einkalífi og starfi.
Í starfi taka allir fjölmargar ákvarðanir á degi hverjum, alveg sama í hvers konar starfi þau eru, til dæmis:
Hvernig get ég unnið í dag þannig að ég styðji sem best við stefnu, gildi og markmið vinnustaðarins?
Hvernig ætla ég að nýta tíma minn sem best í dag, forgangsraða verkefnum og auka frammistöðu mína og skilvirkni í því sem ég geri?
Hvaða viðmót ætla ég að sýna öðrum, jafnt vinnufélögum og viðskiptavinum, í dag?
Hvað ég get lært í dag til að viðhalda eigin atvinnuhæfni - og auka samkeppnishæfni mína og vinnustaðarins á sama tíma?
Í einkalífi taka allir fjölmargar ákvarðanir á degi hverjum, alveg sama hvar þeir eru staddir í sínu lífi, til dæmis:
Hvað þarf ég að gera í dag til að eiga góðan dag, ná markmiðum mínum og vera, gera og hafa það sem mig langar mest í lífinu (óháð því hvað öðrum finnst)?
Hvernig get ég sem best hugsað um eigin heilsu í dag - hvernig ætla ég að næra og styrkja mig, hvernig ætla ég að sinna mér?
Hvernig ætla ég að stýra eigin fjármálum í dag, þannig að það þjóni mér sem best til lengri tíma litið?
Hvernig ætla ég að rækta sambönd við vini og vandamenn í dag?
Það að þekkja eigin gildi og nota þau sem leiðarljós eða hjálpartæki við ákvarðanatöku tryggir að þú takir betri ákvarðanir, upplifir sjaldnar eftirsjá og sért almennt sáttari í leik og starfi.
Einstaklingur sem hefur skilgreint gildi sín sem Heiðarleiki, Gleði og Frelsi tekur væntanlega aðeins öðruvísi ákvarðanir
en sá sem hefur skilgreint gildi sín sem Árangur, Hugrekki, Viðurkenning.
Eitt er ekkert betra en annað í þessu samhengi - aðalmálið er að vera það sem við erum, alltaf sönn og samkvæm okkur sjálfum.
Hugrekki og ákvarðanataka
Ég hef einnig lengi verið að velta fyrir mér hugrekkinu og af hverju við virðumst frekar lifa út frá óttanum um að eitthvað neikvætt gæti gerst frekar en að lifa þannig að líklegra verði að eitthvað gott gerist.
Hvernig tekur þú ákvarðanir í vinnu?
Tekur þú ákvarðanir út frá því sem þú telur rétt og í samræmi við þína sannfæringu
eða út frá því sem þú telur að muni helst falla í kramið hjá öðrum og halda öllu óbreyttu?Hvernig tekur þú ákvarðanir í lífinu yfirleitt?
Tekur þú ákvarðanir út frá lífsgildum þínum, því sem þig virkilega langar og lætur hjarta þitt syngja eða í samræmi við það sem aðrir búast við af þér, hvað aðrir í kringum þig eru að gera og þannig að þú ruggir sem minnst við umhverfi þínu?
Eða tekur þú kannski engar ákvarðanir af ótta við að taka ranga ákvörðun?
- Ég ætla þá að skemma það fyrir þér núna strax því það að ákveða að taka enga ákvörðun er í raun ákvörðun,
og ákvörðun sem slík er svo heldur ekki neitt nema ákvörðun - nema hún sé sett í framkvæmd.
Ég hvet þig til að skoða hvernig stærra hlutfall þeirra 35.000 ákvarðana sem þú tekur á dag, meðvitað og ómeðvitað, geti orðið betri ákvarðanir.
Hér getur þú nálgast stutta æfingu sem getur hjálpað þér að skilgreina eigin gildi.
Ef þinn vinnustað vantar stjórnunarráðgjöf eða stjórnendaþjálfun þá ekki hika við að hafa samband.
Herdís Pála er reyndur og farsæll stjórnandi sem hefur sinnt ráðgjöf og þjálfun fyrir fjölmarga vinnustaði og stjórnendur.
Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.
Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.