Búum ekki til óþarfa gjá á okkar litla vinnumarkaði
Það er margt að breytast í umhverfi okkar, sem hefur áhrif á vinnustaði og stjórnun.
Fólk lifir lengur og heldur betri heilsu lengur. Það er hröð tækniþróun, alþjóðavæðing og aukin pressa á umhverfismálin.
Sýn fólks á vinnu og forgangsröðun tíma er að breytast. Aukin krafa er um sjálfræði, sveigjanleika, fjölskylduvænan lífsstíl og velsæld.
Við þurfum að hafa þessar breytingar í huga þegar kemur að því að undirbúa vinnustaði fyrir framtíðina.
Hér ætla ég að nefna dæmi tengd þjálfun og ráðningum, og hvað við ættum helst að hafa í huga í þeim efnum svo við séum ekki sjálf að búa til gjá á vinnumarkaði, þar sem á sama tíma er skortur á vinnuafli og hópur fólks sem vill vinna fær ekki vinnu.
Samkvæmt nýlegri könnun segjast 40% stjórnenda í 400 stærstu fyrirtækjum landsins sjá fram á skort á vinnuafli. Það er sannarlega mikil áskorun og því þarf að skoða hvað hægt er að gera svo allir þeir sem vilja vinna fái vinnu.
Það er ekki gott ef við búum til gjá þar sem við á sama tíma upplifum skort á vinnuafli og aukið atvinnuleysi, vegna ónægrar atvinnuhæfni einstaklinga eða fordóma og úreltra hugmynda stjórnenda og vinnustaða.
Þjálfun
Við getum dregið úr skorti á vinnuafli með því að tryggja atvinnuhæfni allra sem vilja vinna.
Það þarf að vera samvinnuverkefni vinnustaða og vinnuafls.
Við þurfum að viðhalda og auka atvinnuhæfni með reglulegri og viðeigandi þjálfun. Þannig getum við dregið úr hættunni á skorti á vinnuafli á sama tíma og atvinnuleysi eykst, vegna ónægrar atvinnuhæfni vinnuaflsins.
Vinnustaðir þurfa að setja tíma og fjármagn í þjálfun og í raun ætti þjálfun og þekkingaröflun að vera skilgreindur hluti af öllum störfum í dag.
Einstaklingar þurfa líka sjálfir að vera meðvitaðir um að viðhalda eigin atvinnuhæfni. Helmingunartími prófgráða verður alltaf styttri og styttri. Einstaklingar þurfa stöðugt að vera að lesa og læra og viðhalda þekkingu sinni og atvinnuhæfni.
Hluti af þjálfun og breytingastjórnun vinnustaða snýr að aðlögunarhæfni, sem nauðsynleg er fyrir breytingar og undirbúning fyrir framtíðina.
Ráðningar og fjölbreytileiki
Einstaklingar sem hafa atvinnuhæfni, getu og vilja til að vinna en fá ekki vinnu er annað sem við þurfum að skoða.
Líkamleg geta.
Oft er horft fram hjá fólki með líkamlegar takmarkanir, jafnvel þó það að öðru leyti hafi atvinnuhæfni, menntun, þekkingu, getu og vilja til að vinna. Í störfum þar sem meira reynir á hugræna getu en líkamlega ætti líkamleg geta ekki að vera áhrifaþáttur í ráðningum. Þarna er mannauður sem nýta mætti mun betur.
Ég stýrði nýlega ráðstefnu hjá Öryrkjabandalagi Íslands og þar varð mér þetta enn betur ljóst en áður, hvað vinnumarkaðurinn er oft lítið tilbúinn fyrir fólk sem fellur ekki inn í sama mót og flestir.
Hvernig má það vera að á meðan er skortur á vinnuafli að einstaklingar með líkamlegar takmarkanir en fulla hugræna getu, góða menntun og þekkingu, fái ekki þekkingarstörf, störf sem ekki reyna á líkamlega getu heldur eingöngu hugræna getu?
Aldur.
Annað dæmi er þegar hæfni, sveigjanleiki, sköpunarhæfni o.fl. er tengdur við lífaldur fólks. Sú tenging er ekki studd rannsóknum og einstaklingar einnig misjafnir og því sérstakt að setja alla á sama aldri í sama getuflokk.
Horfa ætti á hvað viðkomandi hefur verið að læra og gera sl. 2-5 ár, frekar en hvaða ár viðkomandi er fæddur.
Hár starfsaldur yngri einstaklings í sama starfi og á sama vinnustað getur dregið meira úr t.d. sköpunarhæfni en hærri lífaldur einstaklings sem hefur verið duglegur að endurmennta sig, prófa nýja hluti og sanna sig í fleiri störfum.
Að mínu mati ættum við heilt yfir að hætta að horfa fram hjá fólki út frá fyrirfram gefnum ályktunum, staðalímyndum, hugsanavillum, fordómum eða annað.
Við kunnum að þurfa að endurskoða stjórnunaraðferðir, matsaðferðir, auka sveigjanleika og hugsa margt upp á nýtt, en við höfum jú held ég bara öll gott af því.
Á okkar litla vinnumarkaði sjáum við fram á skort á vinnuafli, aukum ekki á þann skort með eigin fordómum og ósveigjanleika.
Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.
Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.