Að hanna starfsferil, til árangurs og ánægju
Fæstir byrja sinn starfsferil á því að hanna starfsferilinn sérstaklega, teikna upp og pæla í hvernig þau vilja helst hafa sinn starfsferil.
Það er ósköp skiljanlegt. Við upphaf starfsferils eru flestir bara spenntir að byrja að hlaupa af stað og sanna sig í starfi, auk þess sem oft er ansi margt í gangi í einkalífinu á sama tíma.
En eftir því sem við verðum reynslumeiri og förum lengra inn í starfsferil okkar er gott að staldra við annað slagið og hugleiða eigin starfsferil, líkt og fyrirtæki endurskoða stefnu sína með reglubundnum hætti.
Að vera á miðjum starfsferli
Það er erfitt að segja til um hvað telst vera miður starfsferill (e. mid-career), ekki síst þar sem með auknu langlífi eiga starfsferlar fólks almennt eftir að lengjast.
Sumir kunna að tengja þetta við tiltekinn lífaldur en aðrir við miðbik þess tíma sem líður frá því að starfsferill hófst og þar til fyrirhugað er að láta af störfum.
En hvernig okkar starfsferill er og hvernig við viljum hafa hann er nokkuð sem fólk fer oft að hugsa um þegar það kemst á, eða upplifir að það sé komið á miðjan starfsferilinn, ekki síst þar sem þá er fólk oft líka að ganga í gegnum breytingar í einkalífi. Fólk fer á þessum tíma gjarnan að velta fyrir sér hvort það sé ánægt í starfi, hvort kominn sé tími á að skipta um starf, leitast eftir meiri ábyrgð, eftir minni ábyrgð eða annað. Hvort starfsferillinn sé almennt eins og það helst vildi.
Þó fólk fari kannski almennt ekki mjög meðvitað eða skipulega í þessar pælingar eða hönnun fyrr en komið er á þennan stað á ferlinum þá er það allt í góðu, svo sem aldrei of seint að byrja að hugsa um það. Sérstaklega núna þegar við lifum lengur og förum að starfa lengur, eins og áður sagði.
Sjónarmið sem gott getur verið að hafa í huga við hönnun starfsferils
Vinnur þú til að lifa - eða lifir þú til að vinna
Ef þú ert ekki í starfi sem þú hreinlega upplifir að þú hafir fæðst til að vera í, að starfið þitt sé tilgangur þinn í lífinu, og þú lítur frekar á störf þín sem leið til að afla þér tekna þá getur verið gott að spyrja sig hvernig starfsferil þú vilt eða hvað þú vilt að starfsferillinn gefi þér eða geri fyrir þig?
Viltu starfsferill sem gefur sem mestar tekjur?
Viltu starfsferil sem gefur þér sem mesta gleði?
Viltu starfsferill sem gefur þér sem mest frelsi - í tíma, staðsetningu, samstarfsfólki o.fl.?
Viltu starfsferil þar sem þú getur lært sem mest og fylgst sem best með öllu því nýjasta hverju sinni á þínu starfssviði?
Viltu starfsferill þar sem þú getur haft sem mest áhrif, á annað fólk, samfélagið, umhverfið eða annað?
Eitt útilokar ekki endilega annað og þetta getur vel allt farið saman - en það að velta þessu fyrir sér getur samt verið hugvekjandi og fengið þig til að velta fyrir þér hvort ástæða sé til að gera einhverjar breytingar.
Ef þú telur ástæðu til að gera breytingar
Ef þú telur ástæðu til að gera breytingar þá geta þær verið af ýmsum toga.
Breytingarnar geta verið að semja um ný eða öðruvísi verkefni í núverandi starfi, fara jafnvel í annað starf á sama vinnustað.
Eða að fara í álíka starf innan annarrar atvinnugreinar.
Að fara að starfa sjálfstætt.
Eða jafnvel einhvers konar bland af þessu öllu.
Áður en þú ferð af stað í að semja við núverandi vinnuveitanda um breytingar eða að segja upp starfi þínu, til að sækja um annað eða fara að starfa sjálfstætt eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga.
Hvernig getur þú verið viss um að breytingarnar færi þig nær þínum drauma starfsferli, eða því sem er eftir af honum?
Hvað viltu að starfsferill þinn gefi þér, sbr. spurningarnar hér að ofan?
Hefur þú þá hæfni sem nauðsynleg er í því sem þig langar mest að fara að gera?
Hefur þú náð að sýna fram á góðan árangur og virði með störfum þínum þannig að þú gætir átt auðvelt með að semja um nýtt starf eða verkefni, á núverandi eða nýjum vinnustað, eða sem giggari? Yrðir þú t.d. fyrir valinu í starfið þitt ef það væri auglýst núna?
Hefur þú sinnt eigin símenntun og starfsþróun vel - hefur þú viðhaldið atvinnuhæfni þinni vel, til framtíðar litið?
Hvernig passar það sem þig langar núna að fara að gera við tilgang þinn og persónuleg gildi?
Hversu vel myndi það styðja við heilbrigða samþættingu einkalífs og vinnu - og við líkamlega, andlega, félagslega og fjárhagslega heilsu þína?
Ef þú ert að velta fyrir þér hvernig þú vilt halda áfram, hvort þú vilt finna leiðir til að vera ánægðari í núverandi starfi, breyta um starf eða fara að starfa með öðrum hætti, þá mæli ég með að þú takir þér góðan tíma í að hugsa málið frá alls konar sjónarhornum og líta vel inn á við.
Ég mæli líka með að þú vinnir með coach, sem getur stutt þig í ferlinu, án þess að eiga nokkurra hagsmuna að gæta með hvaða ákvörðun þú tekur. Hér getur þú lesið í gegnum nokkrar spurningar sem gætu hjálpað þér að leggja mat á stöðuna hjá þér.
Sjálf hef ég unnið með mörgum stjórnendum og fólki á krossgötum á sínum starfsferli og leitt þau í gegnum alls konar æfingar og verkefni sem hjálpa þeim að að taka ákvarðanir sem þjóna þeim sem best, hvort sem þau ákveða að gera engar, litlar eða stórar breytingar.
Áhrif stjórnenda á farsæla starfsferla, fyrir einstaklingana og vinnuveitendurna
Stjórnendur í dag ættu almennt að vera að stjórna beint fólki minna, frekar að hvetja það, leiðbeina því og styðja það til góðs árangurs og þróunar í vinnu og einkalífi.
Þannig hafa stjórnendur sem mest og best áhrif með sínum störfum, fyrir vinnuveitandann, starfsfólkið og samfélagið í heild, það sem starfsánægja hefur áhrif á lífsgæði fólks.
Ég hvet stjórnendur til að opna á opið og heiðarlegt samtal við sitt fólk, um hvernig starfsferil það vill byggja upp og hvað það vill fá út úr sínum starfsferli, ég tel það góða leið til að byggja upp traust og einnig getur það dregið úr starfsmannaveltu.
Mikilvægt er að vera opin fyrir þeim svörum sem koma og skilja tækifærin sem felast í því að ekki allir hugsi eins.
Sumu verður hægt að bregðast við og mæta á vinnustaðnum og öðru ekki.
Mögulega verða aðilar sammála um að drauma starfsferillinn felist ekki í núverandi starfi viðkomandi og kannski skilja leiðir, til lengri tíma eða tímabundið. En nú eru ráðningar fyrrverandi starfsfólks að verða algengari enda þykja þær ráðningar oft mjög farsælar.
Þegar fólk er búið að fara og prófa eitthvað annað en vill svo koma til baka og því er alltaf mikilvægt að stjórnendur og starfsfólk skilji vel hvort annað, þó oft sé það kannski erfiðara ef starfslokin eru að frumkvæði vinnuveitandans.
En ef stjórnandi veit hvernig starfsferil fólki langar í og hvað hvetur það áfram í starfi er best ef hægt er að vinna í kringum það, skipuleggja vinnuna og verkefnin með það í huga að hámarka frammistöðu og starfsánægju, á sama tíma.
Með breytingum á verkefnum, ábyrgð, vinnutíma, vinnuumhverfi og auknum tækifærum til að læra og þróast í starfi má mjög líklega bæta ánægju og árangur beggja aðila.
Ef þinn vinnustað vantar stjórnunarráðgjöf, stjórnendaþjálfun eða fræðslu fyrir starfsfólk þá ekki hika við að hafa samband.
Herdís Pála er reyndur og farsæll stjórnandi sem hefur sinnt ráðgjöf og þjálfun fyrir fjölmarga vinnustaði og stjórnendur.
Ég sendi ekki oft pósta, helst þegar ég vil deila einhverju góðu efni, láta vita af námskeiðum sem ég stend fyrir og fleira í þeim dúr.
Þegar þú skráir þig færðu sent ÓKEYPIS sjálfsmat sem hjálpar þér að finna út hverju þú ættir helst að forgangsraða í áframhaldandi vinnu þinni við að ná 360° árangri, í leik og starfi.